„Hélt að ég myndi aldrei segja þetta“

Thierry Henry, hefur trú á erkifjendum Arsenal.
Thierry Henry, hefur trú á erkifjendum Arsenal. AFP

Franski sparkspekingurinn Thierry Henry telur að Tottenham geti unnið ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Tottenham eru sem stendur í 2. sæti, fimm stigum á eftir toppliði Leicester en liðið varð síðast meistari árið 1961.

Henry, sem lék í átta ár með erkifjendum Tottenham í Arsenal, bjóst ekki við svona góðu gengi frá lærisveinum Mauricio Pochettino í vetur. „Tottenham spilar vel og þeir eru gott lið. Ég hélt að ég myndi aldrei segja þetta en þeir geta unnið deildina og eiga mikið hrós skilið,“ sagði Henry.

„Liðið vantaði stöðugleika en núna hefur stjórnarformaðurinn, Daniel Levy, sýnt stjóranum þolinmæði og það er að skila sér. Mauricio Pochettino er rétti maðurinn í starfið,“ bætti Henry við.

Hann sagði að Tottenham hefði góða leikmenn í öllum stöðum. „Auk þess hafa þeir Pochettino sem lætur klúbbinn trúa því að þeir geti unnið deildina. Og já, ég held að þeir geti það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert