Afmælisbarnið tryggði Tottenham sigur

Christian Eriksen fagnar marki sínu í dag.
Christian Eriksen fagnar marki sínu í dag. AFP

Tottenham Hotspur lagði Manchester City að velli 2:1 á Etihad-leikvanginum í Manchester í dag en leikið var í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn var fremur tíðindalítill. Sergio Aguero fékk ágætis færi til þess að koma City yfir á 10. mínútu en hann þrumaði boltanum vel yfir markið. Þá komst Raheem Sterling í gott færi en Danny Rose fórnaði sér fyrir boltann og fékk hann í bringuna á sér.

Það var meira líf í þessu í síðari hálfleik en Tottenham fékk vítaspyrnu á 52. mínútu er boltinn virtist fara í handlegginn á Raheem Sterling. Þegar upptökur eru skoðaðar þá virtist dómurinn harður. Mark Clattenburg dæmdi engu að síður vítaspyrnu og skoraði Harry Kane nokkuð örugglega úr spyrnunni.

Yaya Toure tók aukaspyrnu fyrir City stuttu síðar en boltinn hafnaði í þverslánni. Kelechi Iheanacho var ekki búinn að vera lengi inná er hann jafnaði metin. Hann fékk boltann í miðjum teignum og hamraði honum upp í þaknetið. Hann var einn og óvaldaður í teignum og gat ekki annað en komið boltanum í netið.

Christian Eriksen, sem á einmitt afmæli í dag, sá svo um að tryggja Tottenham öll stigin er hann skoraði af stuttu færi þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hugo Lloris átti þá magnaða björgun í marki Tottenham áður en flautað var til leiksloka en þá var Nicolas Otamendi hársbreidd frá því að stanga knöttinn í netið.

Lokatölur 2:1 fyrir Tottenham sem fer upp í 2. sæti með 51 stig á meðan City er áfram í 4. sætinu með 47 stig.

Leik lokið. Tottenham með frábæran sigur á Manchester City. Það var meira fjör í seinni hálfleik heldur en í þeim fyrri og svo endaði allt með því að afmælisbarnið sá til þess að Tottenham myndi ná fjögurra stiga forskoti á City.

90. HUGO LLORIS AÐ BJARGA!! Það kom fyrirgjöf fyrir markið og það leit allt út fyrir að Nicolas Otamendi myndi skora með skalla en Lloris hélt ekki og blakaði boltanum út í teig. City reyndi við frákastið en það liggur við að sá bolti hafi farið á Old Trafford.

90. Fjórum mínútum bætt við venjulegan leiktíma.

86. Nú rignir skotum. Harry Kane með þrumufleyg rétt fyrir utan teig en boltinn fer rétt framhjá markinu. Það mátti reyna!

83. MAAAAAAARK!! Man City 1:2 Tottenham. Þvílíkur leikur! Christian Eriksen klárar þetta frábærlega. Hann fær boltann inn fyrir vörnina og gat ekki annað en slúttað þessu. Afmælisbarnið sjálft og hann er heldur betur að fagna því!

81. Dele Alli er að koma af velli og inn kemur Erik Lamela. Það á greinilega að sækja til sigurs sýnist mér á öllu. Þetta verða vonandi frábærar lokamínútur.

74. MAAAAAAAAARK!! Man City 1:1 Tottenham. KELECHI IHEANACHO!! Hann fékk boltann í miðjum teignum og hamraði honum í þaknetið. Hann var einn og óvaldaður!

73. Það er nákvæmlega ekkert að frétta. Ég trúi samt ekki öðru en að við fáum spennandi lokakafla. Heimamenn ætla ekki að gefa þrjú stig á Etihad.

57. TOURE Í SLÁ!!! Aukaspyrna sem Man City fékk og Toure setur boltann í þverslá. Við erum með alvöru leik hérna.

53. MAAAAAARK!! Man City 0:1 Tottenham. HARRY KANE!!! Þetta víti fór beint á markið, frekar einfalt.

52. VÍTI!!! Fyrirgjöf sem fer í bakið á Raheem Sterling að mér sýnist. Það er þó dæmt víti, undarlegur dómur.

49. AGUERO!! Toure reynir skot sem fer af varnarmanni og inn í teig. Þar er Aguero en hann getur bara ekki hitt boltann!

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur: Það er markalaust í hálfleik. Það er alveg óhætt að segja það að heimamenn hafi verið betri en liðið hefur ekki nýtt færin. Danny Rose bjargaði á magnaðan hátt með bringunni er Raheem Sterling lét vaða. Það gæti talið mikið í leikslok.

43. Það styttist í hálfleik. Vonandi fáum við einhverja markaveislu í síðari hálfleiknum. Vonum að allt opnist og það rigni inn mörkum þá.

24. STERLING!! City sækir að Tottenham. Heimamenn fengu aukaspyrnu sem þeir komu uinn í teig. Boltinn endar hjá Sterling sem hamrar í kassann á Danny Rose. Frábær björgun hjá Rose!

21. Það er lítið um dauðafæri fyrstu mínútur leiksins. Þetta virðist ekki stefna í sömu veislu var í leiknum hér á undan!

10. AGUERO!! City að ógna. það kemur hornspyrna sem heimamenn skalla áfram á Aguero en skot hans er þó vel yfir. Hann var í góðri stöðu til þess að koma knettinum í netið en það gekk ekki upp í þetta sinn.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert