Þetta er hálfgert ævintýri

Heldur Leicester áfram að koma á óvart í dag?
Heldur Leicester áfram að koma á óvart í dag? AFP

Wes Morgan, fyrirliða Leicester, finnst sitt lið hafa breytt ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu til frambúðar. Liðið er í efsta sæti, fimm stigum á undan Arsenal og Tottenham en liðið mætir Arsenal í stórleik í hádeginu.

Leicester bjargaði sér frá falli á síðustu leiktíð með því að vinna sjö af síðustu níu leikjum sínum í deildinni. Fjölmargir sparkspekingar spáðu því að í ár myndu þeir falla en þeir hafa komið öllum á óvart með frábærum leik.

„Þetta er hálfgert ævintýri. Við höfum komið öllum á óvart en höfum trú á sjálfum okkur og verðskuldum að vera þar sem við erum. Efstu fjögur liðin hafa hingað til yfirleitt unnið öll önnur lið en munstrið er að breytast í ár,“ sagði Morgan.

„Núna eru einnig lið sem hafa komið beint upp úr B-deildinni sem hafa sigrað stærstu liðin. Úrvalsdeildin er að breytast og ég held að það sé breyting til frambúðar,“ bætti Morgan við.

Leicester sækir Arsenal heim í hádeginu en Arsenal hafði betur í fyrri viðureign liðanna í september, 5:2. Morgan hlakkar til leiksins og segir að pressan sé öll á Arsenal.

„Fyrri leikurinn var í byrjun tímabilsins þegar allir voru að reyna að fóta sig. Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir og munu ákvarða hvar við endum í deildinni. Pressan er öll á Arsenal í dag og við ætlum að njóta leiksins og sýna hvað við getum.“

Leikurinn hefst klukkan 12.00 og verður lýst í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert