Lítum á stuðningsmenn Liverpool

Wenger vill að stuðningsmenn Arsenal styðji liðið í blíðu og …
Wenger vill að stuðningsmenn Arsenal styðji liðið í blíðu og stríðu. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hvetur stuðningsmenn liðsins til að vera líkari stuðningsmönnum Liverpool.

Stuðningsmenn Arsenal hafa verið pirraðir síðustu vikur og Wenger vill að andrúmsloftið á Emiraters, heimavelli Arsenal, batni. Hópur stuðningsmanna hefur meðal annars sniðgengið síðustu leiki.

„Fólk talar um Liverpool og andrúmsloftið og stemninguna á Anfield. Það er gott dæmi sem við ættum að fylgja,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag en Arsenal tekur á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

„Ég skil að stuðningsmennirnir eru pirraðir en við viljum að þeir styðji liðið þrátt fyrir það. Það besta sem þeir geta gefið liðinu er góður stuðningur. Þeir þurfa ekki að efast um okkar frábæru leikmenn. Við erum vonsviknir en verðum að berjast og standa saman,“ bætti Wenger við.

„Við glötuðum möguleikanum á því að verða meistarar á heimavelli gegn liðum í neðri hlutanum,“ sagði Wenger að lokum en Arsenal er í 4. sæti deildarinnar 12 stigum á eftir Leicester sem er í efsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert