Hátíðarhöldum frestað í Leicester

Riyad Mahrez og félagar hans há Leicester City verða enskir …
Riyad Mahrez og félagar hans há Leicester City verða enskir meistarar með sigri gegn Manchester United á Old Trafford í dag. AFP

Manchester United og Leicester City gerðu 1:1 jafntefli í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en leikið var á Old Trafford. Leicester mistókst að vinna Englandsmeistaratitilinn í dag, en liðið getur þó fagnað á morgun ef Tottenham misstígur sig gegn Chelsea.

Fyrir leikinn í dag var það vitað að ef Leicester myndi taka þrjú stig yrði liðið Englandsmeistari í fyrsta sinn og var því eðlilega mikil pressa á liðinu. Jamie Vardy, sem hefur raðað inn mörkum fyrir liðið í vetur, var ekki með þar sem hann tekur út leikbann og byrjaði því Leonardo Ulloa í fremstu víglínu, annan leikinn í röð.

Manchester United á meðan þurfti sárlega á stigum að halda til þess að eiga möguleika á því að næla sér í Meistaradeildarsæti fyrir næstu leiktíð. United átti draumabyrjun í dag en Anthony Martial kom liðinu yfir á 8. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Antonio Valencia. Martial fékk boltann vinstra megin í teignum og lagði hann framhjá Kasper Schmeichel í markinu.

Jesse Lingard fékk nokkrum mínútum síðar gott færi til þess að bæta við öðru en Schmeichel sá við honum í markinu. Það dró til tíðinda hjá Leicester á 17. mínútu. Wes Morgan skallaði þá frábæra aukaspyrnu Danny Drinkwater í netið og jafnaði leikinn, 1:1.

Leikurinn róaðist töluvert eftir markið en Leicester var þó nálægt því að leyfa United að komast yfir á 30. mínútu. Danny Simpson gerði þá slæm mistök gegn sínum gömlu félögum er hann lagði boltann á Lingard sem var að sleppa í gegn. Simpson náði að komast upp að Lingard aftur og vinna boltann, en Lingard vildi fá dæmda aukaspyrnu.

Bæði lið fengu ágætis færi í síðari hálfleik en besta færi United var sennilega er Chris Smalling skallaði knöttinn framhjá á 77. mínútu. Tíu mínútum síðar fékk svo Drinkwater að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að toga Memphis Depay niður. Brotið virtist eiga sér stað innan teigs, en dómari leiksins dæmdi aukaspyrnu.

Schmeichel hélt Leicester á floti síðustu mínúturnar með laglegum vörslum og lokatölur því 1:1 á Old Trafford. Leicester er áfram á toppnum með 77 stig, eða átta stigum meira en Tottenham sem er í öðru sæti. Tottenham mætir Chelsea á Stamford Bridge á morgun, en jafntefli þar nægir fyrir Leicester.

United á meðan er áfram í fimmta sætinu, fjórum stigum á eftir Manchester City.

Endurhlaða þarf síðuna til þess að upplýsingarnar sem fram koma á síðunni uppfærist.

Leik lokið. Liðin skilja jöfn á Old Trafford í dag. Leicester er með átta stiga forskot á toppnum þegar liðið á tvo leiki eftir. Tottenham á leik inni í öðru sætinu, en liðið mætir Chelsea á Stamford Bridge á morgun. United er á meðan að fjarlægast fjórða sætið, sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

90. Schmeichel heldur áfram að verjast eins og berserkur. Hann er allt í öllu þessa stundina, vill halda í þetta stig.

89. Schmeichel ver aukaspyrnuna frá Wayne Rooney. Vel gert hjá danska markverðinum.

87. RAUTT SPJALD!!! Man. Utd 1:1 Leicester City. Danny Drinkwater fær að líta sitt annað gula spjald fyrir að toga í Memphis Depay. Togið virtist eiga sér stað innan teigs, en dómari leiksins dæmdi aukaspyrnu. Drinkwater lék árum áður með unglinga- og varaliði United.

77. SMALLING MEÐ SKALLA!! Það kom flott fyrirgjöf inn í teiginn og þar var Chris Smalling mættur en skalli hans fór rétt framhjá markinu. Gullið tækifæri hjá United að komast yfir þarna en það gekk þó ekki upp.

64. ULLOA!! Þokkalegur skalli hjá honum en ratar þó ekki á markið. Leicester ákveðið í því að koma öðru marki inn. Lítið að frétta hjá United þó.

54. Leicester að sækja mikið síðustu mínútur en ná ekki úrslitasendingunni. Eru að eiga hálffæri.

51. SIMPSON NÁLÆGT ÞVÍ!! Hann keyrði inn í teiginn hægra megin, ekki þó ljóst hvort hann ætlaði sér að skjóta eða leggja hann fyrir á Shinji Okazaki en boltinn fer rétt framhjá. Gestirnir ætla sér að taka þennan Englandsmeistaratitil í dag.

48. Martial kom sér í gott færi þarna í teig Leicester-manna en skot hans fer rétt yfir markið.

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur. Það er hnífjafnt í hálfleik. Leicester myndi alveg sætta sig við að fá eitt stig úr þessum leik. Martial kom United snemma leiks áður en Wes Morgan jafnaði metin nokkrum mínútum síðar. Lingard slapp í gegn eftir hálftímaleik eftir slök mistök Danny Simpson, en hann náði að redda sér á afar vafasaman hátt.

30. Danny Simpson í svakalegum vandræðum. Sendir boltann fyrir lappirnar á Jesse Lingard sem var að sleppa í gegn, en Simpson náði að halda í hann. Lingard vildi fá brot en fékk ekki, stór dómur þarna.

17. MAAAAAAAAAAARK!!! Man. Utd 1:1 Leicester City. WES MORGAN ER AÐ JAFNA!! Góð aukaspyrna frá Danny Drinkwater ratar á kollinn á Morgan sem stangar hann framhjá David De Gea í markinu.

11. Heimamenn að pressa gríðarlega síðustu mínútur. Voru líklegir til að bæta við öðru marki fyrir skömmu, en Kasper Schmeichel sá við góðu skoti úr teignum.

8. MAAAAAAAAAAARK!!!! Man. Utd 1:0 Leicester City. ANTHONY MARTIAL!! Antonio Valencia með frábæra fyrirgjöf af hægri vængnum inn á teiginn. Martial mætti þar á fjærstöng og kláraði örugglega í vinstra hornið.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Manchester United er í sjötta sæti deildarinnar með 59 stig fimm stigum frá nágrönnum sínum, Manchester City, sem sitja í fjórða sæti deildarinnar sem gæti veitt þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. 

0. Leicester City verður enskur meistari með sigri í þessum leik. Leicester City trónir á toppi deildarinnar með 76 stig, en liðið er með sjö stiga forskot á Tottenham Hotspur þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni. 

Byrjunarlið Manchester United: De Gea, Valencia, Smalling, Blind, Rojo, Carrick, Fellaini, Lingard, Rooney, Martial, Rashford.

Byrjunarlið Leicester City: Schmeichel, Simpson, Morgan, Huth, Fuchs, Mahrez, Kante, Drinkwater, Schlupp, Okazaki, Ulloa. 

Þessi mæti stuðningsmaður Leicester City gæti fagnað því að liðið …
Þessi mæti stuðningsmaður Leicester City gæti fagnað því að liðið verði enskur meistari á Old Trafford í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert