Gylfi hvíldur fyrir EM?

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið besti leikmaður Swansea seinni hluta …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið besti leikmaður Swansea seinni hluta tímabilsins. AFP

Alan Curtis, aðstoðarþjálfari velska knattspyrnufélagsins Swansea, segir að fyrst liðið sé búið að gulltryggja sér áframhaldandi sæti í ensku úrvalsdeildinni komi vel til greina að hvíla leikmenn í síðustu tveimur umferðunum.

„Vonandi gefur þetta okkur tækifæri til að hvíla nokkra af eldri leikmönnunum okkar, sérstaklega þá sem eru á leið á EM. Þetta er tækifæri fyrir nokkra af okkar yngri mönnum og þá sem eru ekki fastamenn til að koma inn og sýna hvað þeir geta," sagði Curtis við BBC.

Swansea á eftir útileik gegn West Ham og heimaleik gegn Manchester City. Einir þrír leikmanna liðsins eru á leið í lokakeppni EM í Frakklandi sumar. Walesbúarnir Ashley Williams, fyrirliði Swansea, og Neil Taylor, og svo Gylfi Þór Sigurðsson.

Þeir Williams og Taylor voru fastamenn í liði Wales þegar það tryggði sér sæti í lokakeppninni í Frakklandi. Williams spilaði hverja einustu mínútu með landsliðinu en hann er jafnframt fyrirliði þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert