Anfield ógnaði Chelsea og ógnar Villarreal

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool og Jamie Carragher á góðri …
Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool og Jamie Carragher á góðri stundu. AFP

„Á því leikur enginn vafi að ef stuðningsmennirnir geta endurtekið það sem þeir gerðu gegn Dortmund þá mun Villarreal komast í kynni við eitthvað sem liðið hefur ekki upplifað áður í La Liga í deildinni. Það mun ógna þeim,“ segir Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports og fyrrverandi leikmaður Liverpool sem mætir Villarreal í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

„Stærri og betri lið en Villarreal hafa komið á Anfield og frosið vegna andrúmsloftsins. Ég hugsa um Chelsea-leikina og áhrifin sem lætin höfðu á þá (leikmenn Chelsea,“ sagði Carragher við Liverpool Echo um eigin reynslu en hann var miðvörður í Liverpool-liðinu sem mætti Chelsea fimm sinnum á hans tíma í Meistaradeild Evrópu.

Fyrri leikur Liverpool og Villarreal fór 1:0 fyrir þá spænsku sem skoruðu sigurmarkið uppbótartíma leiksins á Spáni og því þarf Liverpool að minnsta kosti tvö mörk ef það ætlar að gera út um einvígið í venjulegum leiktíma.

Til þess að svo gerist telur Carragher nauðsynlegt að Daniel Sturridge byrji gegn Villarreal.

„Ég vona virkilega að Sturridge byrji,“ sagði Carragher.

„Ekkert endilega í stað Firmino, vegna þess að ég tel að hann geti spilað fyrir aftan (Sturridge). En að mínu mati verður Sturridge að vera í byrjunarliðinu,“ sagði Carragher ennfremur.

Sturridge tók ekkert þátt í fyrri leiknum á Spáni en lék síðan allan leikinn í slæmu tapi gegn Swansea um síðustu helgi í ensku úrvalsdeildinni. 

Carragher og tók einnig það fram að árangur Villarreal á leiktíðinni væri byggður á góðum varnarleik, því þurfi að vera með leikmenn sem nýta færin sem gefast.

„Það verður ekki um mörg færi að ræða. Þau færi sem gefast þarf að nýta. Þegar kemur að því að klára færi, þá er Sturridge líklega betri en allir aðrir leikmenn sem enn eru í Evrópudeildinni,“ sagði Carragher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert