Ranieri vill fá Benteke

Christian Benteke skorar úr vítaspyrnu fyrir Liverpool.
Christian Benteke skorar úr vítaspyrnu fyrir Liverpool. AFP

Claudio Ranieri, hinn ítalski knattspyrnustjóri Englandsmeistara Leicester City, vill fá belgíska framherjann Christian Benteke til sín frá Liverpool í sumar, ef marka má frétt La Gazzetta dello Sport á Ítalíu í dag.

Blaðið segir að Ranieri sé þegar búinn að stilla upp sínum óskalista varðandi kaup á leikmönnum í sumar og þar sé Benteke annar tveggja sem hann leggi mesta áherslu á að fá.

Benteke hefur ekki verið inni í myndinni hjá Jürgen Klopp seinni hluta vetrar og nokkuð ljóst að hann er á förum frá Liverpool eftir að hafa lent fyrir aftan bæði Daniel Sturridge og Divock Origi í baráttunni um framherjastöðuna.

Benteke er 25 ára gamall og skoraði 49 mörk í 101 leik fyrir Aston Villa á þremur árum í úrvalsdeildinni áður en Liverpool keypti hann í sumar. Hann hefur skorað 9 mörk í 37 leikjum fyrir Liverpool og 7 mörk í 25 landsleikjum fyrir Belgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert