Augnpotið batt endi á tímabilið

Mousa Dembélé og Diego Costa áttust við á mánudagskvöld.
Mousa Dembélé og Diego Costa áttust við á mánudagskvöld. AFP

Mousa Dembélé, miðjumaður Tottenham, leikur ekki meira með liðinu á þessari leiktíð en hann á yfir höfði sér að lágmarki þriggja leikja bann.

Þetta varð endanlega ljóst í dag þegar Dembélé ákvað að samþykkja kæru enska knattspyrnusambandsins vegna ofbeldisfullrar háttsemi. Gerist menn sekir um ofbeldisfulla háttsemi fá þeir að lágmarki þriggja leikja bann.

Dembélé fær bannið fyrir að pota í auga Diego Costa, framherja Chelsea, í leik á mánudagskvöld en vegna þess að Tottenham tókst ekki að vinna þann leik varð Leicester Englandsmeistari þótt enn séu tvær umferðir eftir af ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert