Gærkvöldið ekki eintóm sæla fyrir Klopp

Jürgen Klopp fagnar af innlifun í gær.
Jürgen Klopp fagnar af innlifun í gær. AFP

Gærkvöldið var ekki bara eintóm sæla fyrir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.

Klopp var að sjálfsögðu gríðarlega ánægður með það að hafa komið Liverpool í úrslit Evrópudeildarinnar en hann lét hins vegar Alberto Moreno, vinstri bakvörð Liverpool fá nokkurs konar „hárblásara“ í leiknum í gær.

Þetta kemur fram hjá blaðamanninum Matt Dickinson hjá The Times sem sagðist hafa verið með suð í eyrunum langt fram eftir kvöldi vegna öskurs Klopp á hinn spænska.

Ástæðan var sú að Moreno var næstum búinn að fá á sig vítaspyrnu á afar viðkvæmum tíma í leiknum þegar forysta Liverpool var enn 2:0.

Klopp var ósáttur með Moreno varnarlega og sagði eftir fyrri leikinn gegn Villareal hreinlega ekki skilja hvar hann var þegar þeir spænsku tryggðu sér 1:0 sigurinn í uppbótartíma. Þá var Moreno hvergi sjáanlegur í vörninni.

Moreno hefur verið gagnrýndur fyrir varnarleik sinn á leiktíðinni af ýmsum sparkspekingum, þar á meðal af fyrrum leikmönnum Liverpool, þeim Jamie Carragher og Mark Lawrenson.

„Ef þú ætlar að vera vinstri bakvörður, þá þarftu að verjast. Við erum með vinstri bakvörð sem nýtur þess að fara fram og er betri í því en hann er varnarlega,” sagið Lawrenson.

„Vinstri bakvörðurinn þarf að fara úr liðinu,” sagði Jamie Carragher við Liverpool Echo í vetur.

Alberto Moreno í baráttu við varnarmann Villareal í fyrri leik …
Alberto Moreno í baráttu við varnarmann Villareal í fyrri leik liðanna. AFP

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert