Liverpool fer í riðlakeppnina með sigri

Byrjunarlið Liverpool í leiknum gegn Villareal í gærkvöld.
Byrjunarlið Liverpool í leiknum gegn Villareal í gærkvöld. AFP

Fari svo að Liverpool vinni Sevilla í úrslitaleiknum í Evrópudeildinni í Basel þann 18. þessa mánaðar tryggir liðið sér þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð.

Sigur Liverpool í Evrópudeildinni mun ekki hafa nein áhrif á önnur ensk lið í Meistaradeildinni. Þrjú efstu sætin tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og liðið sem endar í fjórða sætinu fer í umspil um að komast í riðlakeppnina.

Leicester og Tottenham hafa þegar tryggt sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Baráttan um þriðja sætið í riðlakeppninni stendur á milli Arsenal og Manchester City en Manchester United á þó enn tölfræðilega möguleika á að ná þriðja sætinu.

Arsenal er í þriðja sætinu með 67 stig, Manchester City er með 64 í fjórða sæti og Manchester United er í fimmta sætinu  með 60 stig og leik til góða. West Ham er einnig með í baráttunni um fjórða sætið en liðið er í sjötta sæti með 59 stig og á þrjá leiki eftir eins og United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert