Fundað með umboðsmanni Mourinhos

José Mourinho mun að öllum líkindum taka við Manchester United …
José Mourinho mun að öllum líkindum taka við Manchester United í vikunni. AFP

Fulltrúar Manchester United munu funda með Jorge Mendes, umboðsmanni Josés Mourinhos, í dag í von um að fá samkomulag um kaup og kjör. Þetta kemur fram á vefsíðu BBC.

Ólíklegt er að samkomulegið verði tilkynnt í dag, en búist er við því að ráðning Mourinho verði staðfest í vikunni. Mourinho mun taka við af Louis van Gaal sem stýrði félaginu til sigurs í FA-bikarnum en mistókst að tryggja Meistaradeildarsæti.

Þetta verður þriðja atlaga Mourinho að ensku úrvalsdeildinni, en hann stýrði Chelsea tvívegis og vann þrjá Englandsmeistaratitla með Lundúnarliðinu. Hann var rekinn 17. desember síðastliðinn eftir verstu titilvörn sögunnar, en Chelsea hafði tapað níu af sextán leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert