Liverpool og Man.Utd. sektuð

Stuðningsmenn Liverpool vonsviknir eftir úrslitaleik liðsins gegn Sevilla í Evrópudeildinni.
Stuðningsmenn Liverpool vonsviknir eftir úrslitaleik liðsins gegn Sevilla í Evrópudeildinni. AFP

Liverpool og Manchester United voru í dag sektuð af UEFA fyrir óviðeigandi söngva stuðningsmanna félaganna sem sungnir voru í leikjum liðanna í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla.  

Þá brutust út átök milli stuðningsmanna liðanna, kveikt var á blysum og flugeldum og stuðningsmennirnir köstuðu ýmsu lauslegu hvorir í átt að öðrum.

Sektir félaganna hljóðuðu upp á rúmar átta milljónir íslenskra króna á hvort félag og auk þess þurfa forráðamenn Liverpool að greiða fyrir skemmdir sem stuðningsmenn félagsins ullu á Old Trafford.

Söngvar stuðningsmanna félaganna fjölluðu um sorglega atburði í sögu erkifjendanna. Stuðningsmenn Liverpool sungu um flugslys sem leikmenn og forráðamenn Manchester United lentu í við München árið 1958 og stuðningsmenn Manchester United um Hillsborough-slysið sem varð árið 1989 þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert