Scholes gefur sitt álit á Mourinho

Paul Scholes.
Paul Scholes. SANG TAN

Í ljósi væntanlegrar ráðningar Josés Mourinhos í stöðu þjálfara Manchester United hafa ýmsar goðsagnir félagsins verið beðnar álits, þar á meðal Eric Cantona og David Beckham. 

Paul Scholes, sem var allan sinn 20 ára knattspyrnuferil á Old Trafford, er næstur í röð álitsgefanda. Hann telur að Mourinho muni læra af tíð Louis van Gaal við stjórnvölinn hjá Manchester United og bjóða upp á spennandi knattspyrnu.

„Stuðningsmenn Manchester United munu krefjast skemmtilegrar knattspyrnu og ég er viss um að Mourinho muni ekki bregðast,“ sagði Scholes sem vann 11 Englandsmeistaratitla með Manchester United, undir stjórn Sir Alex Ferguson. Hann segir að van Gaal hafi ekki skilið klúbbinn, en Hollendingurinn var gagnrýndur fyrir bitlausa knattspyrnu. Rauðu djöflarnir skoruðu aðeins 49 mörk á síðasta tímabili. 

„Ég held að Mourinho hafi fylgst grannt með og tekið eftir því sem gerðist. Hann er toppþjálfari eins og hann hefur sannað.“

Ólíkt Eric Cantona, sem telur að Guardiola sé sá eini sem getur boðið upp á knattspyrnu í stíl við Manchester United, telur Scholes Portúgalann José Mourinho fullfæran til að gegna þessu virta þjálfarahlutverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert