Ferdinand gleðst yfir komu Mourinho

Rio Ferdinand í leik með Manchester United.
Rio Ferdinand í leik með Manchester United. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, er ánægður með nýjustu tíðindi af félaginu og telur það heillaspor að ráða José Mourinho sem knattspyrnustjóra félagsins. Ferdinand ritar stuttan pistil á facebook-síðu sína í tilefni þess að fregnir bárust af ráðningu Mourinho þar sem hann segir meðal annars:

„Til hamingju José með að hafa skrifað undir samning við stærsta félag heims. Þetta er stærsta og mest spennandi áskorun José Mourinho á knattspyrnustjóraferlinum. Hans fyrsta verkefni er að laða fram sigurhugarfar að nýju í félagið. Manchester United hefur nú ráðið sannan sigurvegara sem knattspyrnustjóra með ferilskrá sem sýnir fram á að þar er á ferð mikill sigurvegari,“ segir Ferdinand í facebook-færslu sinni.

„Ég hef heyrt fjölda fólks segja að stjórnunarstíll Mourinho sé ekki í samræmi við þann knattspyrnustíl sem Manchester United hefur verið þekkt fyrir í gegnum tíðina. Ég bendi þeim sem hafa slíkar efasemdir hins vegar á að liðið sem Mourinho mótaði hjá Chelsea fyrst þegar hann kom í ensku úrvalsdeildina var með hraða og áræðna kantmenn innanborðs, það er Duff og Robben. Chelsea lék á þeim tíma fótbolta sem stuðningsmenn Manchester United voru vanir að sjá liðið leika,“ segir Ferdinand enn fremur í pistli sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert