Liverpool fær aðra sekt

Stuðningsmenn Liverpool tendruðu á blysi á meðan úrslitaleikur liðsins í …
Stuðningsmenn Liverpool tendruðu á blysi á meðan úrslitaleikur liðsins í Evrópudeildinni gegn Sevilla stóð yfir. AFP

UEFA hefur sektað Liverpool í annað skipti í þessari viku, að þessu sinni fyrir flugeldasýningu sem stuðningsmenn félagsins héldu í leyfisleysi á meðan leikur liðsins gegn Borussia Dortmund í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar stóð yfir.  

Sektin fyrir flugeldasýninguna hljóðar upp á rúma eina og hálfa milljón íslenskra króna, en fyrr í vikunni fékk Liverpool rúmlega fimm og hálfa milljón íslenskra króna í sekt fyrir óviðeigandi söngva stuðningsmanna liðsins í leikjunum gegn Manchester United í 16 liða úrslitum keppninnar.

Þá er slæm hegðun stuðningsmanna Liverpool í úrslitaleik liðsins gegn Sevilla sem fram fór í Basel í síðustu viku einnig til skoðunar hjá UEFA. Þar brutust út átök milli stuðningsmanna Liverpool og Sevilla og stuðningsmenn félaganna köstuðu lauslegum hlutum í hvorir í aðra.

Forráðamenn Liverpool kunna þessum svörtu sauðum í stuðningsmannahópi félagsins líklega litlar þakkir fyrir slæma hegðun þeirra undanfarið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert