Lukaku hugsar sér til hreyfings

Romelu Lukaku skömmu eftir að hann brenndi af vítapsyrnu í …
Romelu Lukaku skömmu eftir að hann brenndi af vítapsyrnu í undanúrslitaleik Everton gegn Manchester United í enska bikarnum í vor. AFP

Allt bendir til þess að belgíski framherjinn Romelu Lukaku sé á förum frá Everton þar sem hann hefur mikinn áhuga á að ganga til liðs við stærra félag þar sem hann getur barist um að vinna titla. 

Lukaku skoraði 18 mörk fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni sem hafnaði í 11. sæti deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð. Þá skoraði Lukaku sjö mörk í öðrum keppnum fyrir Everton síðasta vetur.

Lukaku segist munu hlusta á hugmyndir nýrra eigenda Everton, en líklegt sé þó að hann sé á förum frá félaginu. Lukaku hefur verið orðaður við endurkomu til Chelsea, en þá hafa Manchester United og Bayern München einnig verið nefnd til sögunnar sem líklegir áfangastaðir belgíska framherjans.

„Það er mikilvægt fyrir mig á þessum tímapunkti á ferli mínum að hugsa vel og vandlega um hvar ég mun spila á næstu leiktíð. Everton er komið með nýja eigendur og ég mun sýna þeim kurteisi og hlusta á hvað þeir hafa fram að færa. Ég hef hins vegar mínar eigin hugmyndir sem snúast um að vinna titla,“ sagði Lukaku í samtali við Daily Star.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert