Mourinho búinn að skrifa undir

Jose Mourinho við heimili sitt í London.
Jose Mourinho við heimili sitt í London. AFP

Jose Mourinho hefur skrifað undir samning þess efnis að hann taki við starfi knattspyrnustjóra hjá Manchester United. Samningur Mourinho við Manchester United er til þriggja ára. Þessar fregnir hafa legið í loftinu alla vikuna og það er Skysports sem greinir frá því að þetta sé nú orðið staðfest. 

Mourinho yfirgaf heimili sitt um þrjúleytið í dag og fundaði með Ed Woodward, varaformanni Manchester United. Mourinho skrifaði undir samning við Manchester United á þeim fundi. Mourinho var þögull sem gröfin þegar blaðamenn báðu hann um að staðfesta þessar fregnir fyrir utan heimili hans rétt í þessu.

Mourinho var klæddur í sitt fínasta púss og var með rauðvínsflösku í hendinni þegar hann kom til baka á heimili sitt, en portúgalski knattspyrnustjórinn ætlar líklega að dreypa á rauðvíninu til þess að fagna nýgerðum samningi sínum og fagna því um leið að 12 ár eru síðan hann stýrði Porto til sigurs í Meistaradeild Evrópu. 

Manchester United hefur ekki staðfest þessi tíðindi, en breskir fjölmiðlar segja að það verði gert þegar hlutabréfamarkaðir opna á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert