Guardiola vill eyða 37 milljörðum

Pep Guardiola ætlar að landa titlum hjá Manchester City en …
Pep Guardiola ætlar að landa titlum hjá Manchester City en til þess að svo verði telur hann sig þurfa að gera miklar breytingar á liðinu. AFP

Pep Guardiola, nýr knattspyrnustjóri Manchester City, hefur sagt eigendum félagsins að það verði að festa kaup á allt að átta nýjum leikmönnum í sumar til að geta orðið Englandsmeistari á næstu leiktíð.

Þetta fullyrðir Daily Mirror í dag og segir að Guardiola vilji geta eytt 200 milljónum punda í leikmenn, sem jafngildir tæplega 37 milljörðum íslenskra króna.

City rétt svo náði sæti í Meistaradeild Evrópu á nýafstaðinni leiktíð, undir stjórn Manuel Pellegrini. Guardiola vill gera mun betur en samkvæmt Mirror reikna forráðamenn City með því að þurfa tvö sumur til að breyta leikmannahópnum svo að óskir Guardiola verði uppfylltar. Annað sé óraunhæft þar sem að flestir þeirra leikmanna sem hann vilji fá séu metnir á að lágmarki 25 milljónir punda.

Talið er að í leikmannahópi City séu aðeins þrír leikmenn sem Guardiola sé hrifinn af að hafa í byrjunarliði sínu. Það séu þeir Sergio Agüero, Kevin De Bruyne og Fernandinho. Fyrirliðinn Vincent Kompany gæti verið sá fjórði en hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli.

Talið er að Ilkay Gundogan, miðjumaður Dortmund, verði sá fyrsti sem City kaupir eftir komu Guardiola, en hann er sagður kosta félagið um 20 milljónir punda. Félagið mun líka vera að vinna að kaupum á franska varnarmanninum Aymeric Laporte frá Athletic Bilbao og Leroy Sane, kantmanni Schalke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert