Mourinho ráðinn knattspyrnustjóri Man. Utd

José Mourinho með Manchester United-treyjuna.
José Mourinho með Manchester United-treyjuna. Ljósmynd/Manutd.com

Manchester United hefur staðfest ráðningu José Mourinho í stöðu knattspyrnustjóra félagsins. Mourinho skrifaði undir samning til þriggja ára.

Þessi tíðindi hafa legið í loftinu síðustu daga og vikur en hafa nú endanlega verið staðfest. Mourinho tekur við af Louis van Gaal sem var rekinn tveimur dögum eftir að hafa stýrt United til sigurs í ensku bikarkeppninni, en Hollendingurinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

„José er einfaldlega besti knattspyrnustjórinn í dag,“ sagði Ed Woodward, framkvæmdastjóri United. Mourinho kvaðst sjálfur hlakka mikið til:

„Því að verða stjóri Manchester United fylgir mikill heiður í þessari íþrótt. Þetta er félag sem er þekkt og dáð um allan heim,“ sagði Mourinho, sem kvaðst alltaf hafa haft gaman af sambandi sínu við stuðningsmenn United:

„Ég hlakka til að verða knattspyrnustjórinn þeirra og njóta magnaðs stuðnings þeirra á komandi árum. Það er einhver dulúð og rómantík yfir því sem ekkert annað félag getur boðið upp á,“ sagði Mourinho.

Mourinho hefur þrívegis stýrt Chelsea til Englandsmeistaratitils, en hann stýrði liðinu árin 2004-2007 og aftur 2013-2015. Af öðrum helstu afrekum má nefna að hann gerði Real Madrid að Spánarmeistara árið 2012, Porto að Evrópumeistara árið 2004 og Inter að Evrópumeistara árið 2010.

Mourinho var rekinn frá Chelsea í desember, aðeins sjö mánuðum eftir að hafa gert liðið að Englandsmeistara, en þá var liðið aðeins í 16. sæti deildarinnar, stigi frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert