Pearson kominn aftur til starfa

Nigel Pearson, nýráðinn knattspyrnustjóri Derby County.
Nigel Pearson, nýráðinn knattspyrnustjóri Derby County. AFP

Nigel Pearson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leicester City, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Derby County sem leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla. Samningur Pearsons við Derby County er til þriggja ára. 

Pearson hefur verið án starfs í 11 mánuði eða síðan hann var rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Leicester City. Pearson hafði komið Leicester upp um tvær deildir áður en hann var rekinn og var látinn taka pokann sinn þrátt fyrir að halda liðinu í ensku úrvalsdeildinni á þarsíðasta keppnistímabili með ótrúlegum endaspretti. 

Pearson kom til greina sem knattspyrnustjóri Aston Villa áður en eigendaskipti urðu hjá félaginu og kínverski auðjöfurinn Tony Xia varð eigandi félagsins. Xia hafði aðrar hugmyndir um verðandi knattspyrnustjóra hjá Aston Villa og forráðamenn Derby County tryggðu sér þjónustu Pearsons eftir að viðræður hans við Aston Villa runnu út í sandinn.

„Ég er afar stoltur af því að vera orðinn knattspyrnustjóri Derby County, sem er eitt stærsta félag landsins. Það er frábær umgjörð hjá félaginu og mikill metnaður innan þess. Stefna félagsins er að komast upp í ensku úrvalsdeildina og vonandi tekst mér að stýra liðinu á þann stað þar sem það á heima,“ sagði Pearson á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert