Þýskur landsliðsmarkvörður til Leicester

Ron-Robert Zieler í leik með Hannover.
Ron-Robert Zieler í leik með Hannover. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Leicester City er þegar farið að þreifa fyrir sér á leikmannamarkaðnum en félagið er að ganga frá kaupum á þýskum landsliðsmarkverði, sem kemur frá Hannover. Þetta staðfesti Hannover á heimasíðu sinni í dag.

Tímabilið sem var að klárast var í raun ótrúlegt. Leicester vann ensku úrvalsdeildina og það með tíu stiga mun, eftir að hafa endað í 14. sæti á síðustu leiktíð.

Kasper Schmeichel, markvörður liðsins, spilaði alla deildarleikina á tímabilinu, en hann mun nú fá verðuga samkeppni.

Ron-Robert Zieler, markvörður Hannover í Þýskalandi, er á leið til Englands þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Leicester, en hann er 27 ára gamall og á sex leiki að baki fyrir þýska landsliðið.

Zieler var á mála hjá Manchester United frá 2005 til 2008 en hann lék með unglinga- og varaliðinu. Hann staldraði ekki lengi við á Englandi og fór aftur til Þýskalands þar sem hann samdi við Hannover, en hann hefur verið fastamaður í liðinu síðan.

Hannover féll niður í þýsku B-deildina á dögunum en hann er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að rifta samningnum. Hann hefur ákveðið að nýta sér það og má því búast við að Leicester gangi frá samningum við hann á allra næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert