Real gerir aðra atlögu að De Gea í sumar

David de Gea, markvörður Manchester United.
David de Gea, markvörður Manchester United. AFP

Samkvæmt heimildum spænska fréttamiðilsins COPE munu Evrópumeistarar Real Madrid gera aðra tilraun til þess að fá David De Gea, markvörð Manchester United og spænska landsliðsins, í sínar raðir.

De Gea var örfáum sekúndum frá því að ganga til liðs við Real Madrid á lokadegi leikmannagluggans síðasta sumar, í skiptum við markvörðinn Keylor Navas frá Kostaríka, en skjölin frá Real Madrid bárust of seint með faxi, leikmannaglugginn var þegar lokaður, og voru báðir leikmennirnir því um kyrrt.

Keylor Navas átti frábært tímabil með Real Madrid en það virðist ekki hafa dugað til. Florentino Perez, forseti Real Madrid virðist þrá að fá spænskan landsliðsmarkvörð á milli stanga höfuðborgarliðsins, til að taka við af Iker Casillas fyrir fullt og allt, en Casillas var aðalmarkvörður Real Madrid og spænska landsliðsins í áraraðir og vann fjölmarga titla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert