Tilboði Tottenham í Janssen hafnað

Janssen (annar frá vinstri) fagnar marki með Hollandi.
Janssen (annar frá vinstri) fagnar marki með Hollandi. AFP

Hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar hefur hafnað boði Tottenham Hotspur í hollenska landsliðsframherjann Vincent Janssen. Tottenham bauð rúmlega 11 milljónir punda í Janssen en Alkmaar vill fá rúmlega 16 milljónir fyrir kappann.

Vincent Janssen er 22 ára gamall og varð markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni með 27 mörk í 34 leikjum á síðustu leiktíð. Þetta var fyrsta leiktímabil Janssens í efstu deild Hollands og hefur frammistaða hans vakið eftirtekt stærstu liða Evrópu.

„Það er of mikill munur á tilboði Tottenham og þeim verðhugmyndum sem við höfum,“ sagði Max Huiberts, stjórnarmaður hjá AZ Alkmaar, við De Telegraaf. 

„Það hafa verið miklar þreifingar og mikið um símtöl frá öðrum félögum en að svo stöddu, hafa engin önnur tilboð borist í Janssen,“ bætti Huiberts við.

Janssen hefur byrjað vel í hollenska landsliðsbúningnum og skorað þrjú mörk í fimm leikjum. Fastlega er búist við því að Tottenham hækki tilboðið sitt á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert