United þarf að bæta heimsmet til að fá Pogba

Paul Pogba verður með Frökkum gegn Írum í 16-liða úrslitunum …
Paul Pogba verður með Frökkum gegn Írum í 16-liða úrslitunum á EM í dag. AFP

Enska blaðið Telegraph segir að Manchester United eigi í viðræðum við Juventus og Mino Raiola, umboðsmann Paul Pogba, vegna hugsanlegra kaupa á franska miðjumanninum.

Pogba yfirgaf United fyrir fjórum árum en nýr stjóri félagsins, José Mourinho, er sagður mjög áhugasamur um að fá þennan 23 ára leikmann.

Real Madrid hefur einnig áhuga á að fá Pogba, en samkvæmt Telegraph fer Juventus fram á svo hátt kaupverð að hann yrði dýrasti leikmaður allra tíma. Gareth Bale er sá dýrasti hingað til, en Real keypti hann fyrir 85,3 milljónir punda árið 2013 frá Tottenham. Talið er að Pogba gæti orðið sá fyrsti í sögunni til að kosta 100 milljónir punda þegar allar aukagreiðslur og greiðslur til umboðsmanns séu taldar með.

Áhugi United á að fá Pogba aftur var fyrir hendi áður en Mourinho var ráðinn, en talið er að líkurnar á að það takist hafi aukist talsvert með komu Portúgalans.

United hefur einnig átt í viðræðum við Raiola um tvo aðra leikmenn, þá Zlatan Ibrahimovic og Henrikh Mkhitaryan, sem talið er líklegt að endi með því að þeir komi á Old Trafford. Eini leikmaðurinn sem United hefur keypt eftir komu Mourinhos er miðvörðurinn Eric Bailly frá Villarreal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert