Tekur Wenger við enska landsliðinu?

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er opinn fyrir því að taka við enska landsliðinu þegar samningur hans við Arsenal rennur út á næsta ári.

Breskir fjölmiðlar halda þessu fram en Wenger hefur verið nefndur til sögunnar sem eftirmaður Roy Hodgson. Sá síðarnefndi sagði sem kunnugt er starfi sínu lausu eftir 2:1-tap Englands gegn Íslandi í 16-liða úrslitum EM.

Fari það svo að enska knattspyrnusambandið ákveði að ræða við Wenger og hann sé tilbúinn að taka starfið að sér á næsta ári þá þyrfti að finna tímabundinn þjálfara þangað til. Sá yrði að hefja undankeppni HM í haust sem landsliðsþjálfari Englands og stíga til hliðar þegar Wenger gæti tekið við.

„Ég er að verða of gamall til að gera áætlanir til langs tíma. Í augnablikinu er ég stjóri hjá félagsliði en við sjáum hvað gerist,“ sagði Wenger nýlega en hann hefur verið knattspyrnustjóri Arsenal í 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert