United missti af góðum leikmanni

Sanches fagnar marki sínu með Cristiano Ronaldo í gær.
Sanches fagnar marki sínu með Cristiano Ronaldo í gær. AFP

Portúgalski varnarmaðurinn José Fonte telur að Manchester United muni sjá eftir því að hafa ekki náð að krækja í unga og efnilega knattspyrnukappann Renato Sanches.

Hinn 18 ára gamli Sanches sýndi ágæt tilþrif og skoraði fallegt mark þegar Portúgal hafði betur gegn Póllandi eftir vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum EM í knattspyrnu í gær. Manchester United hafði áhuga á pilti en hann samdi við þýsku meistarana í Bayern München áður en EM hófst.

„Sem úrvalsdeildarleikmaður þá get ég sagt að þeir (United) misstu af góðum leikmanni,“ sagði Fonte en hann leikur með Southampton.

„Hann er góður strákur, hlustar á eldri kallana og vill læra sem er alltaf gott. Það er frábært að hafa hann hérna og ég er viss um að hann er framtíðarmaður í landsliðinu. Bayern München eru heppnir að hafa hann,“ bætti Fonte við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert