United er rétta félagið fyrir Mourinho

Mourinho og Zlatan eru komnir til Manchester United.
Mourinho og Zlatan eru komnir til Manchester United. AFP

Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, telur að hans gamla lið muni taka miklum framförum undir stjórn nýráðins knattspyrnustjóra, Josés Mourinhos.

United hafnaði í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta keppnistímabili en Ferguson býst við betri árangri nú þegar hinn sigursæli Mourinho er tekinn við stjórninni.

„Ég tel að liðið muni taka miklum framförum. Hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu með tveimur liðum og hefur unnið titla alls staðar þar sem hann hefur verið við stjórn. Það er ekki hægt að líta framhjá þeim glæsilega árangri sem hann hefur náð og ég held að Manchester United sé rétta félagið fyrir hann,“ sagði Ferguson í viðtali við Sky Sports.

Mourinho var rekinn frá Chelsea í desember en liðið varð enskur meistari undir hans stjórn í fyrra. Auk Chelsea hefur hann unnið titla með Porto, Real Madrid og Inter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert