Wenger setti Henry afarkosti

Thierry Henry, sparkspekingur Sky Sports.
Thierry Henry, sparkspekingur Sky Sports. AFP

Thierry Henry, sem er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Arsenal, mun ekki þjálfa U-18 ára lið félagsins eins og til stóð. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, taldi það ekki fara saman að Henry ynni samtímis sem þjálfari unglingaliðsins og sem sérfræðingur hjá Skysports. 

Wenger telur að þjálfarastarf hjá Arsenal sé fullt starf sem ekki sé hægt að sinna í hlutastarfi. Henry bauðst til þess að vinna launalaust með Kwame Ampadu, aðalþjálfara unglingaliðsins. Wenger setti Henry hins vegar afarkosti, að hætta hjá Skysports eða halda áfram starfi sínu hjá Arsenal.

Henry ákvað að velja starf sitt hjá Skysports, en talið er að hann fái um það bil fjórar milljónir punda í árslaun hjá sjónvarpsstöðinni. Henry, sem nýverið útskrifaðist með UEFA A þjálfaragráðu, þarf að leita á önnur mið í þjálfuninni og að félagi sem er til í að sjá í gegnum fingur sér með störf hans hjá Skysports.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert