Kraftaverk að ná öðru sætinu

Þýski varnarmaðurinn Per Mertesacker.
Þýski varnarmaðurinn Per Mertesacker. AFP

Þýski varnarmaðurinn Per Mertesacker viðurkennir að Arsenal hafi verið heppið að hafna í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á síðasta keppnistímabili.

Arsenal skaust fram fyrir erkifjendur sína í Tottenham á síðasta keppnisdeginum. Arsenal vann Aston Villa en Tottenham tapaði fyrir Newcastle en það varð til þess að Arsenal endaði stigi á undan Tottenham.

„Eins og hlutirnir þróuðust á síðasta tímabili vorum við frekar heppnir að hafna í öðru sæti. Við náðum að snúa hlutunum okkur í hag undir lokin en það var í rauninni kraftaverk að ná öðru sætinu,“ sagði Mertesacker.

„Leicester náði að notfæra sér slakt gengi flestra stóru liðanna. Það var svekkjandi að við náðum ekki að gera slíkt hið sama,“ bætti Mertesacker við. Fyrsti leikur Arsenal í úrvalsdeildinni í haust er 14. ágúst en þá tekur liðið á móti Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert