Varnarmaður Napoli nálgast Chelsea

Kalidou Koulibaly er öflugur miðvörður.
Kalidou Koulibaly er öflugur miðvörður. AFP

Kalidou Koulibaly, varnarmaður Napoli á Ítalíu, hefur ýtt undir þann orðróm að hann sé á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea. Umboðsmaður hans ræddi um mál hans í ítölskum útvarpsþætti í dag.

Koulibaly, sem er 25 ára gamall, var eins og klettur í vörninni hjá Napoli á síðustu leiktíð en Antonio Conte, stjóri Chelsea, er afar hrifinn af kappanum.

Hann hefur verið orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið síðustu daga og staðfesti umboðsmaður Koulibalys að varnarmaðurinn hefði áhuga á því að yfirgefa Napoli en það þarf þó afar hátt tilboð að berast í kappann til þess að það verði af félagaskiptunum.

„Koulibaly vill fara frá Napoli og svo virðist sem ítalska félagið ætli ekki að standa í vegi fyrir honum. Það sem gerðist með Higuain er ekki að fara að gerast með Koulibaly, hann verður ekki seldur í annað félag á Ítalíu. Chelsea hefur enn áhuga á honum og við höfum tíma til að klára það,“ sagði Bruno Satin, umboðsmaður Koulibalys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert