Manchester City gerir tilboð í Stones

John Stonesá á æfingu með enska landsliðinu í Frakklandi í …
John Stonesá á æfingu með enska landsliðinu í Frakklandi í sumar. AFP

Manchester City hefur hafið viðræður við Everton með það fyrir augum að tryggja sér krafta enska landsliðsmannsins Johns Stones. Samningar hafa ekki tekist milli félaganna, en ekki er talið að mikið beri á milli í samningaviðræðunum. 

Talið er að Everton vilji fá 50 milljónir punda fyrir Stones og Manchester City sé reiðubúið að greiða þá upphæð en félögin ræði nú hvernig fyrirkomulagi greiðslunnar verði háttað. Everton keypti Stones á þrjár milljónir punda frá Barnsley árið 2013 og ávaxtar pund sitt ríkulega ef af viðskiptunum verður.

Stones var hluti af enska leikmannahópnum á Evrópumótinu í sumar, en lék ekkert með enska liðinu á mótinu. Stones hefur leikið 77 leiki fyrir Everton síðan hann gekk til liðs við félagið og skorað í þeim leikjum eitt mark. Þá hefur hefur hann leikið tíu leiki fyrir enska landsliðið. 

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir Stones vera varnarmann að sínu skapi og leikstíll hans henti þeirri leikaðferð sem hann kýs að spila.

„Miðverðir eru alla jafna sterkir og öflugir í loftinu og í návígjum. Við þurfum þannig varnarmenn en einnig varnarmenn sem eru góðir í uppspili og geta komið boltanum vel frá sér úr vörn liðsins. Stones er með góða sendingagetu og getur komið boltanum hratt frá sér, sem mér líkar í fari varnarmanna,“ sagði Guardiola um Stones á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert