Landsliðsfyrirliðinn á leið til Roma?

Aron Einar Gunnarsson gæti verið á leið til Roma.
Aron Einar Gunnarsson gæti verið á leið til Roma. AFP

Ítalska stórliðið AS Roma og þýska liðið HSV Hamburg berjast nú um Aron Einar Gunnarsson, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ef marka má ítalska og þýska fjölmiðla í dag.

Aron Einar, sem er 27 ára gamall, átti frábært mót með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar, en eins og flestum er kunnugt komst íslenska liðið alla leið í 8-liða úrslit en laut í lægra haldi gegn heimamönnum.

Miðjumaðurinn öflugi hefur leikið með velska liðinu Cardiff City frá árinu 2011 en hann kom þá frá Coventry. Hann hefur ekki átt fast sæti í liði Cardiff að undanförnu en hann er líklega á förum frá félaginu.

Fjölmörg lið hafa sýnt honum áhuga en ítalskir fjölmiðlar greindu frá því í sumar að Bologna hefði áhuga á honum. Nú fullyrða þeir það að AS Roma vilji fá hann fyrir lok gluggans en HSV Hamburg frá Þýskalandi er einnig búið að blanda sér í baráttuna.

Aron á 200 að leiki að baki fyrir Cardiff og þá hefur hann skorað 20 mörk í þeim leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert