Sturridge óánægður með stöðuna

Daniel Sturridge á leik Liverpool gegn Burton Albion á þriðjudaginn.
Daniel Sturridge á leik Liverpool gegn Burton Albion á þriðjudaginn. AFP

Enski framherjinn Daniel Sturridge segir að hann sé óánægður með að spila á kantinum í leikkerfi Jürgen Klopp en fullyrðir jafnframt að hann muni taka það á sig fyrir liðið. 

Eftir að hafa misst af fyrsta deildarleik tímabilsins byrjaði Sturridge á hægri kantinum gegn Burnley og var tekinn af velli á 65. mínútu. Hann var í svipuðu hlutverki í 5:0 sigri Liverpool gegn Burton Albioní EFL bikarnum á þriðjudaginn. 

„Ég þarf að sinna skyldum fyrir liðið,“ sagði Sturridge um nýja hlutverkið. „Það þýðir ekki endilega að ég sé sáttur með það en ef ég er settur í einhverja stöðu þá verð ég að spila í henni.“

Hingað til hefur Jürgen Klopp kosið að nota Roberto Firmino og Divock Origi í miðlægu framherjastöðunni sem hefur ýtt Sturridge á jaðar vallarins. Hann telur að það hindri hann í að spila eins og best væri kosið. 

„Auðvitað er erfiðara að spila á vængnum, ég er framherji. Í nútímafótbolta þarf maður að vera fjölhæfur en allir vita hver besta staðan mín er. Allir vita hvar mér finnst best að spila.“

„Ég er leikmaður sem reiðir sig á eðlisávísun og í miðlægu hlutverki á ég auðvelt með hreyfingar sem ég hef gert árum saman. Maður gerir bara hlutina vegna þess að maður er vanur því. Úti á kantinum þarf ég að huga að öðrum atriðum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert