Er Sterling endurfæddur?

Raheem Sterling skoraði tvö mörk í dag.
Raheem Sterling skoraði tvö mörk í dag. AFP

Raheem Sterling, leikmaður Manchester City á Englandi, átti frábæran leik er lið hans sigraði West Ham United 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í dag. „Sterling er endurfæddur,“ segja enskir fjölmiðlar.

Enski vængmaðurinn átti erfitt uppdráttar á sinni fyrstu leiktíð undir stjórn Manuel Pellegrini en þrátt fyrir að skora 11 mörk í 47 leikjum átti hann marga slaka leiki. Pep Guardiola tók við City í sumar og virðist Sterling nú vera allt annar leikmaður.

Hann er kominn með tvö mörk í þremur leikjum í deildinni og þá hefur hann lagt upp önnur tvö mörk. Hann skoraði einmitt þessi tvö mörk fyrir City gegn West Ham í dag en enskir fjölmiðlar halda því fram að leikmaðurinn sé endurfæddur.

„Er ég endurfæddur? Ég er alltaf að rekast á þetta orð. Þetta var mjög erfið fyrsta leiktíð hjá nýju félagi en núna er Guardiola kominn inn og hefur hann gefið mér meira hugrekki og heimild til þess að vera frjálsari á vellinum. Hann skaut meira að segja á mig í dag, því honum fannst ég ekki vera að rekja boltann nógu mikið,“ sagði Sterling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert