Lærisveinar Guardiola með fullt hús stiga

Raheem Sterling skorar þriðja mark leiksins.
Raheem Sterling skorar þriðja mark leiksins. AFP

Manchester City sigraði West Ham United 3:1 í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram á Etihad-leikvanginum í Manchester. City er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina.

Heimamenn í City byrjuðu leikinn frábærlega. Það tók aðeins sjö mínútur fyrir Raheem Sterling að koma knettinum í netið. David Silva og Nolito spiluðu þá boltanum vel sín á milli áður en boltinn barst á Sterling, sem gat ekki annað en skorað af stuttu færi.

Fernandinho bætti við öðru ellefu mínútum síðar eftir sendingu frá belgíska miðjumanninum Kevin de Bruyne úr aukaspyrnu. Fernandinho skallaði boltann í netið og staðan orðin 2:0.

City fékk fjölmörg tækifæri til að bæta við fleiri mörkum og skoraði Nolito þriðja markið í byrjun síðari hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Stuttu eftir það minnkaði Michail Antonio muninn fyrir West Ham með skalla eftir sendingu frá Arthur Masuaku.

City fékk nokkur færi undir lok leiks til að bæta við og það hafðist. Sterling skoraði í uppbótartíma eftir sendingu frá Silva. Sterling labbaði svo framhjá markverðinum og rúllaði knettinum í netið. Þó má setja stórt spurningamerki við varnarvinnu James Collins í markinu.

Lokatölur 3:1 fyrir City sem er með fullt hús stiga en West Ham er með einn sigur eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. City fer með sigur af hólmi. Þetta var aldrei í hættu. West Ham kom af krafti inn í síðari hálfleikinn og minnkaði muninn. City tók þó við sér eftir það og náði að koma inn í einu marki undir lok leiks.

90. MAAAAAAARK!!! Raheem Sterling að skora. Silva með stungu vinstra megin, Sterling fór framhjá markverðinum og var í þröngu færi en kom boltanum samt inn. Skil ekki upp né niður hvað James Collins var að spá í vörninni þarna.

90. SAMIR NASRI!! Hann fékk góða stungusendingu inn fyrir en hann skýtur boltanum vel yfir.

88. STERLING!! Hann var kominn í gegn vinstra megin en afgreiðslan var hrikaleg.

85. City er líklegt til að bæta við þriðja markinu. West Ham lítið að ógna.

65. AGUERO!! Hann gat þarna bætt við þriðja markinu fyrir City en skot hans fer í hliðarnetið.

58. MAAAARK!!!! Michail Antonio er að minnka muninn. Það er von fyrir West Ham kannski? Arthur Masuaku átti fyrirgjöf sem Antonio kom í netið. Þetta kom eiginlega upp úr engu.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur.

18. MAAARK!! Fernandinho!!!! Hann skorar eftir sendingu frá Kevin de Bruyne. Auðvelt.

7. MAAAARK!! Raheem Sterling kemur Cit yfir. Þetta tók ekki langan tíma fyrir enska landsliðsmanninn.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Lýsingin verður uppfærð hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert