Rooney hættir eftir HM

Wayne Rooney, fyrirliði enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ræðir við fjölmiðla …
Wayne Rooney, fyrirliði enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ræðir við fjölmiðla í dag. AFP

Wayne Rooney, fyrirliði enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti það á blaðamannafundi í dag að hann hygðist hætta að leika með enska liðinu eftir HM sem fram fer í Rússlandi 2018. Sam Allardyce, þjálfari enska liðsins, tilkynnti það í gærkvöldi að Rooney yrði áfram fyrirliði.

Rooney hefur leikið 115 leiki með enska liðinu, en hann tekur fram úr David Beckham sem næstleikjahæsti leikmaður liðsins leiki hann með liðinu gegn Slóvakíu í fyrstu umferð í undankeppni HM 2018.

Peter Shilton, fyrrum markvörður enska liðsins, er leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi, en hann lék 125 landsleiki. Rooney er markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi með 53 mörk.

„Ég hef gert upp hug minn og tekið þá ákvörðun að eftir HM í Rússlandi finnst mér tími til kominn að kveðja landsliðið. Þetta er þar af leiðandi síðasta tækifæri mitt til þess að vinna titil með enska landsliðinu. Ég ætla því að njóta þessara tveggja ára og vonandi enda ég landsliðsferilinn á góðum nótum,“ sagði Rooney á blaðamannafundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert