Það verður engin vitleysa

Nicklas Bendtner fagnaði nokkrum mörkum í búningi Arsenal.
Nicklas Bendtner fagnaði nokkrum mörkum í búningi Arsenal. AFP

Danski sóknarmaðurinn Nicklas Bendtner mun ekki gera allt vitlaust ef hann skorar gegn Arsenal í enska deildabikarnum á morgun. Bendtner gekk nýverið til liðs við Nottingham Forest og mun mæta Arsenal í fyrsta skipti í keppnisleik en Daninn var í herbúðum Arsenal í samtals níu ár.

„Flestir fagna ekki þegar þeir skora gegn gamla liðinu sínu en aðrir gera allt vitlaust, sem getur verið skemmtilegt,“ sagði Bendtner þegar hann var spurður um möguleg fagnaðarlæti gegn hans gamla liði.

„Ég mun fagna smá en það verður engin vitleysa,“ bætti Bendtner við.

„Mér finnst svo langt síðan ég var í Arsenal. Ég var lengi í herbúðum félagsins en margt hefur á daga mína drifið síðan þá þannig að þetta er örlítið eins og gömul minning,“ sagði Bendtner en hann yfirgaf Arsenal fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert