Arsenal afgreiddi Chelsea í fyrri hálfleik

Arsenal-menn gátu sannarlega fagnað í dag.
Arsenal-menn gátu sannarlega fagnað í dag. AFP

Arsenal vann öruggan 3:0 sigur á Chelsea í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fylgst var með gangi mál hér á mbl.is.

Skytturnar léku á als oddi í fyrri hálfleik og komnu sér í 2:0 stöðu eftir aðeins 14 mínútna leik.

Alexis Sánchez skoraði fyrsta markið á 11. mínútu eftir varnarmistök Gary Cahill í öftustu varnarlínu þar sem hann tapaði boltanum. Sánchez nýtti sér það og afgreiddi færið afar vel yfir Thibaut Courtois í marki Chelsea.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Theo Walcott eftir frábært spil Arsenal-manna sem endaði með sendingu Hector Bellerin á Walcott sem gat lítið annað en skorað.

Þjóðverjinn Mesut Özil rak svo smiðshöggið á frábæran fyrri hálfleik Arsenal með afar laglegri afgreiðslu. Eftir samleik við Sánchez sendi Sílemaðurinn boltann fyrir á Özil sem skaut knettinum á loppi í jörðina þaðan sem boltinn fór yfir Cahill og Courtois í markinu, 3:0 og leikurinn nánast búinn en ekkert mark var skorað í síðari hálfleik.

Arsenal hefur 13 stig í 3. sæti deildarinnar, jafnmörg og Liverpool en Skytturnar hafa örlítið betri markatölu.

Chelsea hefur tapað tveimur leikjum í röð í deildinni og ekki unnið í síðustu þremur, en liðið hefur 10 stig í 8. sæti.

90. Leik lokið! Öruggur sigur Arsenal staðreynd!

70. Staðan enn þá 3:0 og allt bendir til þess að stigin þrjú sigli þægilega í höfn Skyttanna.

52. Stórhættuleg sókn Arsenal, sem rennur út sandinn. Sánchez ekki nógu stór til þess að skalla sendingu Walcott í netið.

46. Síðari hálfleikur hafinn.

45. Hálfleikur. 

40. MARK! Mezut Özil kemur Arsenal í 3:0 með laglegri afgreiðslu eftir góðan samleik við Alexis Sánchez. Özil tók sendingu Sánchez í fyrsta, skaut knettinum í jörðina þaðan sem hann skoppaði yfir bæði Gary Cahill og Courtois í markinu. Skytturnar eru hreinlega að pakka Chelsea saman hér í fyrri hálfleik.

14. MARK! Staðan er 2:1. Theo Walcott búinn að tvöfalda forystu Arsenal. Hvað er að gerast? Frábært spil hjá Arsenal, Walcott gat lítið annað en sett boltann í netið eftir sendingu Héctor Bellerín.

12. MARK! Alexis Sánchez kemur Arsenal yfir eftir mistök Cahill í vörninni. Staðan 1:0. Önnur mistök Cahill á skömmum tíma. Missti boltann einnig úr öftustu varnarlínu gegn Swansea, þar virtist þó vera brotið á honum, en hann vissi upp á sig sökina í þetta skiptið.

4. Arsenal í færi, Cazorla með skotið en Courtois ver. Leikurinn byrjar fjörlega!

1. Leikurinn er farinn af stað!

Lið Arsenal: Cech; Bellerin, Mustafi, Koscielny, Monreal; Cazorla, Coquelin; Walcott, Ozil, Iwobi; Sanchez.

Lið Chelsea: Courtois, Ivanovic, Cahill, Luiz, Azpilicueta, Kante, Matic, Willian, Fabregas, Hazard, Costa.

Alexis Sánchez afgreiðir boltann snilldarlega í markið yfir Thibaut Courtois …
Alexis Sánchez afgreiðir boltann snilldarlega í markið yfir Thibaut Courtois í marki Chelsea í dag. AFP
Leikmenn Arsenal hita upp.
Leikmenn Arsenal hita upp. AFP
Arsene Wenger og Antonio Conte mætast á hliðarlínunni í dag.
Arsene Wenger og Antonio Conte mætast á hliðarlínunni í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert