„Ein besta frammistaða síðustu ára“

Arsene Wenger var ánægður eftir leik dagsins í dag.
Arsene Wenger var ánægður eftir leik dagsins í dag. AFP

Arsene Wenger sparaði ekki stóru orðin eftir 3:0 sigurinn á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og sagði frammistöðu liðsins vera þá bestu í mörg ár undir hans stjórn.

Arsenal skoraði öll þrjú mörkin í fyrri hálfleik en það voru þeir Alexis Sánchez, Theo Walcott og Mesut Özil sem gerðu mörk Skytanna.

„Þetta er eitt af þessum augnablikum í lífi þínu sem stjóri þar sem þú hugsar: Dagurinn í dag var frábær,” sagði Wenger himinlifandi, en hann er á sínu 20. tímabili sem stjóri Arsenal.

Wenger sagði enn fremur að frammistaða liðsins í fyrri hálfleik hefði verið „næstum fullkomin”.

„Í síðari hálfleik vorum við svolítið fram og til baka en í fyrri hálfleik sýndum við mikil gæði. Við spiluðum með miklum glæsibrag, vorum fljótir og hreyfanlegir. Þannig fótbolta viljum við spila,” sagði Wenger.

„Þetta er ein besta frammistaða síðustu ára,” sagði Wenger.

Arsenal er fimm stigum á eftir Manchester City, sem er í toppsæti deildarinnar og hefur unnið alla sex leiki sína hingað til.

Francis Coquelin fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og var það líklega það eina neikvæða við leik Arsenal í kvöld. Wenger vissi ekki hvort meiðslin væru alvarleg, það tæki 48 klukkustundir að sjá eðli þeirra. Hann sagði þó að um sömu meiðsli væri að ræða og á síðustu leiktíð, en þá missti sá franski af tveimur mánuðum vegna meiðslanna.

Smelltu HÉR til að sjá viðtalið við Wenger í heild sinni á BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert