Burnley svipar til íslenska landsliðsins

Jóhann Berg Guðmundsson til varnar gegn Cristiano Ronaldo á EM …
Jóhann Berg Guðmundsson til varnar gegn Cristiano Ronaldo á EM í Frakklandi í sumar. Jóhann lagði upp mark Íslands í leiknum við Portúgal. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley verða í eldlínunni í kvöld þegar þeir mæta Watford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Jóhann kom til Burnley frá Charlton í sumar eftir vel heppnað Evrópumeistaramót í Frakklandi þar sem hann lék alla leiki Íslands, meðal annars í sigri á Englandi í 16-liða úrslitum. Jóhann segir ákveðin líkindi vera með Burnley og íslenska landsliðinu.

„Þegar maður er að spila í Englandi og tekst að vinna enska landsliðið þá eru allir að spyrja út í það. Ef að ég skoða Burnley og íslenska landsliðið þá eru þetta ekki alveg eins lið, en það er ýmislegt líkt með þeim,“ er haft eftir Jóhanni á vef Tribal Football.

„Við spilum yfirleitt 4-4-2 og bæði lið eru mjög vinnusöm. Það var auðvelt að komast inn í hópinn í búningsklefanum og stemningin þar er svipuð. Öllum kemur vel saman, menn eru félagar og stefna allir að sama takmarki,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert