Allardyce rekinn úr starfi

Sam Allardyce staldraði stutt við sem landsliðsþjálfari Englands.
Sam Allardyce staldraði stutt við sem landsliðsþjálfari Englands. AFP

Sam Allardyce hefur verið sagt upp störfum sem landsliðsþjálfara Englands í knattspyrnu eftir aðeins einn leik og 67 daga í starfi sem slíkur. Enska knattspyrnusambandið staðfesti þetta í kvöld á heimasíðu sinni.

Gareth Southgate, þjálfari U21 árs landsliðsins, mun taka tímabundið við stjórastarfinu og mun stýra liðinu í leikjum gegn Möltu, Slóveníu, Skotlandi og Spáni á meðan enska sambandið leitar að eftirmanni Allardyce.

Ástæða brottrekstarins er sú að Allardyce samþykkti að þiggja 400 þúsund punda greiðslu fyrir að aðstoða austurlenska viðskiptamenn við að fara á svig við reglur enska knattspyrnusambandsins er varða leikmenn í eigu þriðja aðila. Þetta kom í ljós er Allardyce ræddi við blaðamenn sem voru með falda myndavél á sér og Allardyce taldi vera viðskiptajöfra en þeir funduðu meðal annars á veitingastað í Manchester-borg í síðustu viku.

Allardyce gaf í kjölfar fréttanna frá sér yfirlýsingu sem lesa má hér neðst í fréttinni.

Eignarhald þriðja aðila gengur út á það að leikmenn eru ekki að fullu í eigu knattspyrnufélaga heldur geta fyrirtæki eða einstaklingar einnig á hlut í þeim. Á síðasta ári gengu í gegn reglur hjá FIFA sem bönnuðu eignarhald þriðja aðila alfarið en því hefur stundum verið líkt við þrælahald. Eignarhald þriðja aðila hefur verið bannað hjá enska knattspyrnusambandinu frá árinu 2008.

Á myndskeiðinu má einnig sjá og heyra Allardyce tala illa um forvera sinn í starfi, Roy Hodgson, og Gary Neville og sagði þann síðarnefnda hafa haft slæm áhrif á liðið á EM í Frakklandi í sumar þar sem enska landsliðið tapaði eins og frægt er orðið gegn Íslandi í 16-liða úrslitum keppninnar. 

„Segðu Gary (Neville) að setjast og þegja svo þú getir gert það sem þú vilt,“ sagði Allardyce meðal annars um Roy eða „Woy“ Hodgson eins og Allardyce kallaði hann.

Þá gagnrýndi hann einnig enska knattspyrnusambandið og sagði það ekki hugsa um neitt annað en peninga en enska knattspyrnusambandið eyddi meðal annars 870 milljónum í nýjan Wembley. „Þeir virðast bara hugsa um peninga, er það ekki?“ sagði Allardyce.

Yfirlýsing Allardyce: 

Í ljósi liðinna atburða hef ég ásamt knattspyrnusambandinu ákveðið að hér munu leiðir skilja.

Það var mikill heiður fyrir mig að vera ráðinn í júlí og er ég afar vonsvikinn að þetta skuli vera niðurstaðan.

Ég hitti í dag síðdegis þá Greg Clare og Martin Glenn og bað þá einlæglega og af öllu mínu hjarta afsökunar vegna gjörða minna.

Þrátt fyrir að það hafi skýrt komið fram í samtölunum sem tekin voru upp að allar þær tillögur sem ég lagði til myndu þurfa að fást samþykktar hjá enska knattspyrnusambandinu þá viðurkenni ég að ég sagði hluti sem eru afar vandræðalegir. 

Á fundinum í dag var ég beðinn um að útskýra það sem ég sagði og í hvaða samhengi samræðurnar áttu sér stað. Ég hef verið samvinnuþýður og gert það skilmerkilega. 

Ég sé einnig eftir því sem ég sagði hvað varðar aðra einstaklinga. 

Hér má lesa yfirlýsingu Allardyce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert