Milner, gleymdu þessu!

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool var gestur í hinum geysivinsæla þætti, Monday Night Football í gærkvöldi, á Sky Sports og þótti mörgum hann fara á kostum. 

Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður og bakvörður Liverpool, er annar þáttastjórnenda og spurði Klopp meðal annars út í bakverðina hjá Liverpool og hvernig Klopp líti á þá stöðu í dag.

Bakverðir Liverpool, þeir James Milner og Nathaniel Clyne, taka virkan þátt í sóknarleik Liverpol og hafa til að mynda skapað fleiri færi, 12 og 13 (í þessari röð ) en allir aðrir bakverðir í úrvalsdeildinni.

„Þessi tegund af bakvörðum er eins og miðjumenn,“ sagði Klopp. „Þeir spila mjög hátt, eru kantmenn stundum, stundum miðjumenn. Reglan er: vertu möguleiki (fyrir liðsfélaga þína) til að senda á eða vertu til tilbúinn til að hjálpa,“ sagði Klopp.

„Bakvörðurinn er frábær staða þar sem þú ert alltaf með í leiknum. Ég man þegar ég talaði við Milly (Milner) um að spila mögulega í vinstri bak, ég sagði: hvernig líst þér á?“ 

„Hann svaraði: en ég mun ekkert fá boltann.“ Ég sagði: Gleymdu þessu, þú munt fá boltann miklu oftar en þú getur ímyndað þér,” sagði Klopp.

Margir höfðu efasemdir um bakvarðarstöður Liverpool fyrir tímabilið, sér í lagi höfðu menn áhyggjur af vinstri bakvarðarstöðunni þar sem Klopp vildi nota Milner, sem er miðjumaður að upplagi, í bakvarðarstöðuna.

Klopp vildi hins vegar ekki gera of mikið úr þessu.

„Þeir hafa gert vel hingað til en ég vil ekki standa hérna og segja bara hvað mér finnst þessar tölur frábærar. Þetta er gott og þetta á að vera. Við erum gott fótboltalið. En við verðum að bæta okkur. Nú er Swansea okkar næsta verkefni,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert