Pearson í vandræðum á ný

Nigel Pearson er enn eina ferðina kominn í vandræði.
Nigel Pearson er enn eina ferðina kominn í vandræði. AFP

Nigel Pearson, stjóri enska B-deildarliðsins Derby County, mun ekki stýra liðinu í kvöld gegn Cardiff, félagi landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar, og herma heimildir ytra að Pearson verði rekinn frá félaginu.

Útvarpsstöð BBC í Derby greindi frá málinu og sagði frá að rannsókn væri hafin vegna hegðunar Pearsons og að ekki væri væri búist við því að hann muni snúa aftur á hliðarlínuna sem stjóri liðsins.

Á vefsíðu Derby kemur fram í dag að Pearson muni ekki stýra liði Derby í kvöld að beiðni forráðamanna félagsins.

Derby, sem hefur verið í toppbaráttu B-deildarinnar undanfarin ár og oft verið hársbreidd frá því að komast upp í úrvalsdeildina, hefur ekki unnið í síðustu sex leikjum, hefur aðeins unnið einn leik af níu og skorað í þeim einungis þrjú mörk.

Pearson, sem áður stýrði Leicester þaðan sem hann var rekinn vegna umdeilds máls, tók við Derby í sumar.

Pearson gagnrýndi leikmenn sína opinberlega eftir 2:1 tap gegn Blackburn á heimavelli um síðustu helgi og sagði þá vera lamaða af ótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert