Klopp segir Gylfa og félaga óheppna

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp segir engir afsakanir vera í boði fyrir Liverpool sem mætir Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og segir þá betri en stigasöfnun þeirra gefur til kynna.

Gylfi Þór og félagar hafa aðeins fengið fjögur stig í fyrstu sex leikjum deildarinnar og ítalski stjórinn þeirra Francesco Guidolin er undir mikilli pressu.

„Við sáum ekki bara síðasta leik hjá Swansea heldur næstum alla leikina þeirra. Spilamennska þeirra er upp á meira en fjögur stig. Þeir eru með gott lið. Þeir hafa skýra áætlun og marga kosti í sínu spili,“ sagði Klopp. „Þeir hafa verið óheppnir að hafa aðeins fengið fjögur stig,“ sagði Klopp enn fremur.

Síðast þegar Liverpool mætti í heimsókn á Liberty-völlinn í Swansea tapaði liðið 3:1. Þá hafði liðið nokkrum dögum fyrr tapað í Evrópudeildinni og verið undir miklu leikjaálagi. Nú sé það ekki upp á teningnum.

„Nú höfum við engar afsakanir. Við höfum tíma í endurhæfingu, tíma í að æfa, undirbúa okkur og greina,“ sagði Klopp enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert