Starfið veltur á Liverpool-leiknum

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea hafa ekki farið …
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea hafa ekki farið vel af stað. AFP

Francesco Guidolin, stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea viðurkennir að starf hans hangi á bláþræði hjá Swansea og segir að tap gegn Liverpool um helgina gæti orðið til þess að hann missi vinnuna.

Swansea er í 17. sæti með einn sigur, eitt jafnteli og fjögur töp í fyrstu sex leikjunum.

Guidolin tók við starfinu á síðustu leiktíð eftir að Garry Monk var rekinn frá félaginu. Frammistaða liðsins og úrslitin duttu inn hjá Ítalanum fljótlega eftir að hann tók við og honum var verðlaunuð sú frammistaða með nýjum samningi.

Tímabilið í ár hefur hins vegar farið illa af stað og þegar hann var spurður í dag hvort tap gegn Liverpool gæti markað endastöð fyrir hann hjá Swansea sagði hann: „Kannski. Það gæti verið. Það gæti gerst.“

„Ég talaði við formanninn (Huw Jenkins) í síðustu viku en akkurat núna er mikilvægast fyrir mig að vinna með mínum leikmönnum og liðinu á æfingasvæðinu og undirbúa þá fyrir leikinn,” sagði Guidolin í dag.

Fréttir hafa að undanförnu sagt frá því að Jenkins hafi fundað með Bob Bradley, fyrrverandi stjóra bandaríska landsliðsins, og þá hefur Ryan Giggs einnig verið talinn líklegur af veðbönkum í starfið hjá Svönunum.

Hinn 60 Ítali neitaði hins vegar að tala um þær sögusagnir á blaðamannafundinum í dag.

„Þetta er ekki mitt mál. Formaðurinn er heiðarlegur og hreinskilinn, hann hefur ekkert talað um þetta,” sagði Guidolin.

„Ég talaði við formanninn í síðustu viku og þarf ekki á þessu að halda. Ég þarf bara að fara að vinna og fá úrslit vegna þess að þetta er fótbolti. Án úrslita eru orð ekki mikilvæg,” sagði Guidolin enn fremur.

Francesco Guidolin.
Francesco Guidolin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert