Walcott ánægður með samstarfið við Sánchez

Theo Walcott hefur verið að gera afar góða hluti í …
Theo Walcott hefur verið að gera afar góða hluti í síðustu leikjum Arsenal. AFP

Theo Walcott hefur verið sjóðheitur með Arsenal í undanförnum leikjum. Hann segir að það megi að miklu leyti þakka góðum skilningi á milli sín og Sílebúans Alexis Sánchez.

Sánchez lagði upp bæði mörk Walcotts í sigrinum á Basel í Meistaradeild Evrópu í gær en þeir ollu svissneska liðinu miklum vandræðum með hraða sínum. Svipað var uppi á teningnum í 3:0-sigri Arsenal á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi, þar sem þeir félagar skoruðu sitt markið hvor.

„Samvinnan á milli okkar tveggja er mjög jákvæð þessa stundina. Við virðumst einhvern veginn vita ansi vel hvaða hlaup við eigum að taka. Ef hann fer stutt þá fer ég langt, og við vinnum bara mjög vel saman,“ sagði Walcott við heimasíðu Arsenal.

Sánchez hefur leikið sem framherji á þessu tímabili á meðan að Olivier Giroud er að komast í gang, og hefur haldið nýja framherjanum Lucas Perez utan byrjunarliðsins. Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins hefur Sánchez skorað fimm mörk og lagt upp fjögur í síðustu fimm leikjum í byrjunarliðinu. Walcott hefur líka skorað fimm mörk, þar af fjögur í síðustu þremur leikjum:

„Ef við höldum hreinu þá munum við vinna leikina, því við munum skora helling af mörkum. Þessi samvinna mín og Alexis er að virka mjög vel, en það er lítið búið af tímabilinu. Vonandi höldum við báðir heilsu og þá mun þetta ganga vel,“ sagði Walcott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert