Verstur í úrvalsdeildinni fyrir 48 tímum

Jesse Lingard og Paul Pogba tóku léttan dans eftir mörkin …
Jesse Lingard og Paul Pogba tóku léttan dans eftir mörkin sem þeir skoruðu í kvöld. AFP

José Mourinho ræddi við fréttamenn um franska miðjumanninn Paul Pogba eftir að hann skoraði tvö marka Manchester United í 4:1-sigrinum á Fenerbahce í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Pogba hlaut mikla gagnrýni vegna frammistöðu sinnar í markalausu jafntefli United við Liverpool á Anfield á mánudagskvöld, en skoraði afar laglegt mark í kvöld auk þess að skora fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu.

„Fyrir tveimur dögum var hann versti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, en 48 tímum síðar er hann orðinn algjörlega stórkostlegur,“ sagði Mourinho, og virtist þannig gefa lítið fyrir þá gagnrýni sem Pogba fékk eftir Liverpool-leikinn.

„Hann þarf tíma. Ég var á Ítalíu og þekki ítalska fótboltann. Ég bjóst ekki við því að það myndi allt smella strax eftir fjögur eða fimm ár á Ítalíu. Hann þarf tíma,“ sagði Mourinho.

United fékk tvær vítaspyrnur á innan við þremur mínútum í fyrri hálfleik í kvöld, og skoruðu Pogba og Anthony Martial úr spyrnunum. Wayne Rooney, sem var einnig í byrjunarliði United, lét sér nægja að fylgjast með.

„Fyrsti vítaspyrnumaðurinn okkar var Paul. Við tókum þá ákvörðun og kannski vildi hann ekki taka annað víti strax á eftir. Ég gef alltaf einhverjum ábyrgðina  en jafnframt frelsi til að leyfa öðrum á vellinum að taka spyrnuna,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert