„Þetta pirrar mig“

Michael Owen.
Michael Owen. AFP

Michael Owen, fyrrverandi leikmaður Manchester United, er undrandi á að Wayne Rooney skyldi ekki hafa tekið báðar vítaspyrnurnar sem United fékk í leiknum á móti Fenerbache í Evrópudeildinni í gærkvöld.

„Þetta pirrar mig. Rooney hefði átt að taka bæði vítin. Fyrir tólf árum síðan spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir United og það var á móti Fenerbache. Þá tók hann boltann af af Ryan Giggs og skoraði þrennu í leiknum. Hefði hann skorað úr vítunum þá væri hann bara einu marki frá markameti Sir Bobby Charlton,“ sagði Owen í viðtali við BT Sports eftir leikinn.

„Ég man þegar hann var yngri. Þá var hann æstur í að skora mörk. Fái liðið víti á hann að vera sá fyrsti sem vill taka það. Ég trúi því ekki að hann hafi gefið þau frá sér,“ sagði Owen.

Paul Pogba fór á vítapunktinn og skoraði úr fyrra vítinu á Old Trafford í gær og Anthony Martial skoraði úr síðara vítinu.

Pogba sagði eftir leikinn að hann hefði sagt Rooney að hann vildi taka vítið og að Rooney hafi rétt sér boltann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert