Chelsea rótburstaði United í endurkomu Mourinho

Chelsea fór afar illa með Manchester United þegar José Mourinho mætti í fyrsta sinn á Stamford Bridge eftir að hafa verið rekinn þaðan í fyrra. Chelsea burstaði United 4:0 og komst með sigrinum í fjórða sæti deildarinnar.

Þeir bláklæddu settu tóninn strax í upphafi, því eftir aðeins 29 sekúndur kom Pedro þeim yfir eftir að hafa farið framhjá David De Gea sem var kominn langt út úr markinu. Þetta er fljótasta markið sem skorað hefur verið það sem af er tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Á 21. mínútu tvöfaldaði Gary Cahill forystu Chelsea með skoti á fjærstöng eftir hornspyrnu, en United var þá í miklum vandræðum að hreinsa frá. Staðan 2:0 í hálfleik.

Þegar um hálftími var eftir kom þriðja markið, en það skoraði Eden Hazard eftir að Chelsea-menn höfðu fengið að leika lausum hala með boltann utan teigs. Hazard fór þá illa með Chris Smalling í teignum og skoraði.

Smalling lét fara enn verr með sig um tíu mínútum síðar þegar N‘Golo Kante komst á ferðina, sneri hann af sér eins og ekkert væri auðveldara og skoraði fjórða mark Chelsea. Ekki urðu mörkin fleiri, lokatölur 4:0 fyrir þeim bláklæddu í endurkomu José Mourinho á Stamford Bridge.

Chelsea komst með sigrinum í fjórða sæti deildarinnar, hefur þar 19 stig en United er í sjöunda sæti með 14 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Ekki endurkoman á Stamford Bridge sem Mourinho vonaðist eftir!

79. Besta tækifæri United! Zlatan tekur vel á móti boltanum eftir undirbúning Mata og nær föstu skoti á markið. Á einhvern óskiljanlegan hátt nær Curtois að verja meistaralega.

70. Mark! Staðan er 4:0. Fjórði naglinn er kominn í kistu United. N'Golo Kante fíflar Chris Smalling eins og leikmann í yngri flokkunum og skorar framhjá De Gea eftir að hafa fengið að komast á ferðina. Mourinho er þungur á brún.

61. Mark! Staðan er 3:0. Martröð Mourinho heldur áfram. Nú fengu Chelsea-menn að leika lausum hala utan teigs, boltinn barst að lokum til Eden Hazard í teignum. Hann sneri af sér Chris Smalling sem var alveg staður í vörninni og skilaði boltanum í netið.

48. Diego Costa skorar fyrir Chelsea en er langt fyrir innan svo markið er réttilega dæmt af.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. Skipting hjá United í hálfleik, Fellaini fer af velli og Juan Mata kemur inn gegn sínum gömlu félögum.

45. Hálfleikur. Ætli sé ekki von á smá hárblásara frá Mourinho inni í klefa.

40. David Luiz fær gult fyrir mjög ljótt brot á Fellaini. Heppinn að hafa ekki fengið rautt.

35. United minnir á sig. Thibaut Courtois í marki Chelsea varði fyrst langskot Ander Herrera og sömuleiðis frá Jesse Lingard sem fylgdi á eftir.

26. Chelsea hamrar járnið meðan heitt er og nú bjargaði De Gea á elleftu stundu fyrir United áður en boltinn barst til Diego Costa sem lúrði í teignum.

21. Mark! Staðan er 2:0. Eftir hornspyrnu skorar Gary Cahill eftir mikinn vandræðagang í vörn United við að hreinsa frá. Boltinn datt til hans á fjærstönginni og staðan orðin erfið fyrir United.

8. United reynir að svara fyrir sig. Valencia kominn upp að endamörkum og sendir fyrir, þar sem Zlatan er í góðu skallafæri en hitti ekki markið.

3. Markið hjá Pedro kom eftir 30 sekúndur, sem er fljótasta markið í ensku úrvalsdeildinni það sem af er þessu tímabili. Mourinho fær ekkert gefins á gamla heimavellinum!

1. Mark! Staðan er 1:0. Þvílík byrjun á þessum leik! Nánast eftir að hafa tekið miðju fær Pedro langa sendingu fram völlinn, De Gea fer langt út úr markinu og Hazard kemst framhjá honum. Eftirleikurinn er svo auðveldur fyrir þann spænska sem renndi boltanum í autt markið.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan. Wayne Rooney er ekki í liði United og ekki heldur á bekknum. John Terry er að koma til baka eftir meiðsli hjá CHelsea og er á bekknum.

Chelsea: Courtois; Azpilicueta, David Luiz, Cahill; Moses, Kante, Matic, Alonso; Pedro, Hazard, Costa.

Man Utd: De Gea; Valencia, Smalling, Bailly, Blind; Fellaini, Herrera; Rashford, Pogba, Lingard; Ibrahimovic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert